Það virðist vera opinbert markmið að búa til þjóðfélag þar sem við þurfum ekki að hugsa. Þjóðfélag þar sem við þurfum ekki að bera ábyrgð á okkur sjálfum. Þjóðfélag þar sem búið er að taka allar ákvarðanir fyrir okkur. Smátt og smátt hættum við að geta gert greinarmun á réttu og röngu, því við höfum reglur um allt.
Ég hef ekki farið á kaffihús síðan 1. júní. Ég hef enga ánægju af því, og enga ástæðu til þess að fara. Ég fór á kaffihús áður, til þess að fá mér Latte og sígó. Nú er einhver búinn að ákveða að þeir sem ekki vilja fara á kaffihús þar sem er reykt, eigi réttinn. Ef allt væri eins og það á að vera, væru hér kaffihús af öllum stærðum, sum reyklaus, önnur ekki. Allir ættu val, bæði veitingamenn og neytendur. Ein leið væri t.d. að þegar starfsleyfi er gefið út fyrir veitingahús, ákveði veitingamaðurinn hvort hann vilji vera með reykingaleyfi eða ekki. Ef hann vill leyfa reykingar, þá greiðir hann auka gjald fyrir það sem svo rennur til tóbaksvarnarráðs. Gallinn hefur verið sá, fyrir tíma reykingabannsins, að það vantaði að fleiri staðir og fjölbreyttari, reyndu reyklausu leiðina. En því miður skorti þau kjark til að láta reyna á það. Með gjaldtöku fyrir reykingaleyfi, hygg ég að sé kominn hvati fyrir veitingamenn að taka þá ákvörðun að vera með reyklaust og neytendur fengju því fleiri valkosti, sem nútímaþjóðfélag á að sjálfsögðu að snúast um.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.